Heimaþjónusta

Markmið heimaþjónustu er að gera öldruðum íbúum sveitarfélagsins kleift að búa heima eins lengi og kostur er. Heimaþjónusta er fyrir þá sem búa í heimahúsum og geta ekki hjálparlaust séð um heimilishald, persónulega umhirðu og nauðsynlegar athafnir daglegs lífs vegna skertrar getu, fjölskylduaðstæðna, álags, veikinda, fötlunar eða af öðrum ástæðum sem matsnefnd metur gildar. Leitast er við að koma til móts við þarfir hvers og eins. Ekki er að jafnaði veitt þjónusta sem aðrir heimilismenn, 18 ára og eldri, geta annast.
Samningur er gerður um heimaþjónustu í ákveðinn tíma, að jafnði 6-12 mánuði, og þörf á þjónustu síðan endurmetin eftir þann tíma. Gildistími samnings getur mest verið tvö ár við umsækjendur sem sýnt er að þurfi á áframhaldandi þjónustu að halda.

Heimsending matar og aðstoð við innkaup
Þeir sem búa í Hrafnagilshverfi og geta ekki eldað sjálfir um skemmri eða lengri tíma og búa ekki á heimili með öðrum sem eru færir um það, geta sótt um að fá heimsendan mat í hádeginu þegar mötuneyti Eyjafjarðarsveitar er starfrækt. Utan Hrafnagilshverfis er reynt að finna einstaklingsbundnar lausnir.
Þeir sem þurfa aðstoð við innkaup geta sótt um að fá heimsendar matarpantanir vikulega. 

Sótt er um heimaþjónustu á eyðublaði sem er skilað til skrifstofu Eyjafjarðarsveitar, Skólatröð 9, 605 Akureyri. Matsteymi á velferðarsviði Akureyrarbæjar metur þjónustuþörf.

Notendur heimaþjónustu greiða fyrir þjónustuna samkvæmt gjaldskrá sem er tekjutengd. Gjaldskrá vegna heimaþjónustu má finna í listanum hér.

Síðast uppfært 09. júlí 2021
Getum við bætt efni síðunnar?