Skipulagsnefnd

302. fundur 15. mars 2019 kl. 08:15 - 08:15 Eldri-fundur

302. fundur skipulagsnefndar Eyjafjarðarsveitar
haldinn í fundarstofu 2, Skólatröð 9, 14. mars 2019 og hófst hann kl. 09:00.

Fundinn sátu:
Sigurlaug Hanna Leifsdóttir, Hákon Bjarki Harðarson, Emilía Baldursdóttir, Vigfús Björnsson, Finnur Yngvi Kristinsson, Hermann Ingi Gunnarsson og Eiður Jónsson.
Fundargerð ritaði: Vigfús Björnsson embættismaður.

Dagskrá:

1. Umsókn um uppbyggingu svínahúss í landi Torfna - 1809034
Skipulagsnefnd fjallar um erindi sem bárust á auglýsingartímabili deiliskipulagstillögu svínabús á Torfum, en athugasemdafrestur var til 14. febrúar 2019. Í afgreiðslu nefndarinnar er vísað til skjal frá Evrópuráðisins „Best Available Techniques (BAT) Reference Document for the Intensive Rearing of Poultry and Pigs, 2017“, sem tilgreint er í reglugerð um losun frá atvinnurekstri og mengunarvörnum nr. 550/2018.
Skipulagsnefnd afgreiðir erindi í þeirri röð sem á eftir fer:

1. erindi, Sendandi Minjastofnun.
Sendandi gerir ekki athugasemd við tillöguna.
Afreiðsla skipulagsnefndar: Gefur ekki tilefni til bókunar.

2. erindi, sendandi Vegagerðin.
a) Sendandi fer fram á að fjarlægðarkröfum úr kafla 5.3.2.5 í skipulagsreglugerð sé bætt við í kafla 4.3 og 4.4 í DSK greinargerð.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að fjarlægðarkröfum í kafla 5.3.2.5 í skipulagsreglugerð sé bætt við kafla 4.3 og 4.4. í greinargerð deiliskipulags.

b) Sendandi tiltekur kröfur sem vegtenging svínabús þarf að uppfylla og fer fram á að samráð við Vegagerðina vegna hönnunar og framkvæmdar vegtengingar.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að kallað verði eftir umsögn Vegagerðarinnar þegar umsóknir um framkvæmda- eða byggingarleyfi á svæðinu koma til afgreiðslu.

3. erindi, sendandi Umhverfisstofnun
a) Sendandi vísar í rit útgefið af Evrópuráðinu um bestu aðgengilegu tækni í þauleldi (BAT 2017 reference document for the intensive rearing of poultry and pigs).
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Gefur ekki tilefni til bókunar.

b)Sendandi gerir athugasemd við texta um förgun dauðra gripa frá svínabúinu á bls. 27 í greinargerð og og bendir á að skv. reglugerð nr. 1078/2015 skuli lífrænn úrgangur meðhöndlast í samræmi við forgangsröðun við meðhöndlun úrgangs.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd telur að förgun dauðra gripa með losun í hrægám samræmist lögum um meðhöndlun úrgangs nr. 55/2003 og að athugsemd sendanda gefi því ekki tilefni til breytinga á auglýstri skipulagstillögu.

c) Sendandi telur að byggingarmagn á svæðinu sé umtalsvert og telur að byggingin muni líklega hafa neikvæð áhrif á landslag.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að byggingarskilmálum verði breytt á þá leið að fyrirskrifað skuli vera að lýsingarhönnun mannvirkja og útisvæða skuli miða að því að lágmarka sjónræn áhrif sem og að eingöngu verði heimilt að hafa mannvirki í jarðlitum. Ennfremur bendir skipulagsnefnd á að sjónræn áhrif megi milda enn frekar með gróðursetningu skjólbelta og mönum.

d) Sendandi bendir á að á skipulagssvæðinu sé reiðleið skv. aðalskipulagi og telur að koma skuli fram hvort tillagan hafi áhrif á útivistargildi svæðisins.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd bendir á að skv. reglugerð nr. 520/2015 megi ekki skipuleggja svæði sem nemur 600 m radíus umhverfis svínabúið til útivistar og að því leyti hafi tillagan óhjákvæmilega áhrif á útivistargildi nærumhverfis síns. Skipulagsnefnd telur þó að þessi áhrif séu svo staðbundin að þau spilli ekki nýtingu reiðleiða RS3 og RH2 sem skv. aðalskipulagi Eyjafjarðarsveitar 2018-2030 liggja í nágrenni svínabúsins. Skipulagsnefnd telur því að athugasemd sendanda gefi ekki tilefni til breytinga á auglýstri skipulagstillögu.

e) Sendandi bendir á að samkvæmd vistgerðarkorti Náttúrufræðistofnunar Íslands sé tjarnstaraflóavist á jaðri skipulagssvæðisins og hún njóti verndar skv. Bernarsamningsins frá 2014. Sendandi telur mikilvægt að þetta komi fram í skipulagi.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að ákvæði um verndargildi tjarnstaraflóavistar sé bætt við greinargerð deiliskipulags.

4. erindi, sendandi Guðrún Egilsdóttir og Guðmundur Jón Guðmundsson, Holtseli
a) Sendandi gerir alvarlegar athugsemdir við fyrirhugaða starfsemi af þessari stærð svo nærri byggð og ýmiskonar starfsemi s.s. útivist, veitingasölu og ýmissa athafna t.d. í Grundarkirkju, giftingar, skírnir ofl. Í Holtseli eru oft margir gestir sem sitja úti og njóta veitinga og útiveru, nærveru við dýr og náttúru. Þeir sem ekki eru vanir sterkri lykt af dýrum forðast eflaust staði sem fnyk leggur yfir. Þar finnst okkur vanta staðgóðar rannsóknir t.d. með reykprufum.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd bendir á umfjöllun um vindrósir í kafla 1.5 í greinargerð og um heilsu og öryggi í kafla 5.8.4. Ætla má að lykt frá fyrirhuguðu svínabúi berist helst til Holtsels í hægri suð-austan átt. Á grundvelli upplýsinga um tíðni vindátta (vindatlas.vedur.is) ályktar skipulagsnefnd að 0-5 m/s vinds úr suð-austri gæti u.þ.b. 0,4 % tímans. Skipulagsnefnd telur því að verulegra lyktaráhrifa gæti sjaldan í Holtseli og athugasemd sendanda gefi ekki tilefni til breytinga á auglýstri skipulagstillögu.

b) Sendandi kemur á framfæri alvarlegum athugasemdum við staðsetningu svínabúsins. Sendandi átelur einnig að kynning á verkefninu hafi ekki farið fram meðan það var á umræðustigi.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Umrætt svæði er skilgreint sem landbúnaðarland í aðalskipulagi Eyjafjarðarsveitar 2018-2030 og því samræmist framkvæmdin samþykktri stefnu sveitarfélagsins um uppbyggingu á svæðinu. Skipulagsnefnd bendir á að kynning á skipulagslýsingu (október 2018) og skipulagstillögu á vinnslustigi (desember 2018) hafi verið samkvæmt ákvæðum skipulagslaga nr. 123/2010. Að öðru leyti vísar skipulagsnefnd á landeiganda varðandi ráðstöfun á landi í einkaeign og kynningu á framkvæmdaráformum.

5. erindi, Undirskriftalisti með 22 nöfnum
a) Sendendur telja að lífsgæði í nágrenni Verksmiðjunnar minnki verulega vegna lyktar- og sjónrænnar mengunar. Sendandi bendir á að hagsmunaaðilar í nágrenni og ferðamenn á Kerlingu muni einnig upplifa þessa sjónrænu mengun.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd bendir á umfjöllun um veðurfar í kafla 1.5 í greinargerð og um heilsu og öryggi í kafla 5.8.4. og telur að áhrif framkvæmda á nærumhverfi sitt teljist þar með fyllilega upplýst. Ennfremur bendir skipulagsnefnd á að starfsemi svínabúsins sé háð starfsleyfi Umhverfisstofnunar skv. reglugerð um losun frá atvinnurekstri og mengunareftirlit nr. 550/2018, og í reglugerðinni komi fram skilmálar um notnun bestu aðgengilegu tækni (BAT) sem ætla megi að draga muni úr lyktaráhrifum frá svínabúinu. Með vísan niðurstöðu í kafla 5.8.4. í greinargerð deiliskipulags telur skipulagsnefnd því að áhrif fyrirhugaðs svínabús á heilsu og öryggi séu óveruleg.
Með vísan í umfjöllun í kafla 5.8.1. og afgreiðslu nefndarinnar á erindi 3 c) og telur skipulagsnefnd að byggingarskilmálar mildi sjónræn áhrif mannvirkja eins og kostur er.
Skipulagsnefnd telur að athugasemd sendanda gefi ekki tilefni til breytinga á auglýstri skipulagstillögu.

b) Sendandi gerir athugasemd við að í skýrslunni sé ekkert fjallað um fóðursíló sem verða 6-8 talsins og 12-14 metra há.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd vísar í kafla 4.2. í greinargerð auglýstrar skipulagstillögu (dags. 17. des. 2018) þar sem fjallað er um fóðursíló, og fram kemur að þau séu 8 talsins og 8 m há.

6. erindi. Sendandi Valur Ásmundsson, Hólshúsum
a) Sendandi bendir á að í landi Hólshúsa og Dvergsstaða séu nú þegar átta íbúðarhús og nokkrar skipulagðar lóðir. Hagsmunir íbúa og eigenda felist í hreinleika og nálægð við náttúruna og vistvænan búskap. Sú framkvæmd sem stefni í í landi Torfa sé af öðrum toga og því sé mikilvægt að staðið sé að verkinu með framsýni að leiðarljósi og hvergi verði slakað á í lyktar- og mengunarvörnum. Aðeins þannig mun sveitarfélagið standa vörð um sérstöðu samfélagsins í okkar þéttbýlu og hreinu sveit.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd bendir á að starfsemi svínabúsins sé háð starfsleyfi Umhverfisstofnunar skv. reglugerð um losun frá atvinnurekstri og mengunareftirlit nr. 550/2018, og í reglugerðinni komi fram skilmálar um notknun bestu aðgengilegu tækni (BAT), sem á að standa vörð um umhverfisgæði í nærumhverfi svínabúsins.

b) Sendandi gerir kröfu um að skipulagið fjalli með ýtarlegri hætti um hvernig lágmarka skuli lyktarmengun og hvernig staðið skuli að dreifingu skíts frá búinu.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd bendir á að starfsemi svínabúsins sé háð starfsleyfi Umhverfisstofnunar skv. reglugerð um losun frá atvinnurekstri og mengunareftirlit nr. 550/2018, og í reglugerðinni komi fram skilmálar um notknun bestu aðgengilegu tækni (BAT), sem á að standa vörð um umhverfisgæði í nærumhverfi svínabúsins. Skipulagsnefnd bendir á að Umhverfisstofnun sé það stjórnvald sem fari með framfylgd fyrrnefndrar reglugerðar og því beri stofnuninni að hafa atbeina að því að fyrirskrifa tilteknar tæknilausnir fyrir starfsemina.

c) Sendandi gerir kröfu um að áður en framkvæmdaleyfi sé gefið út verði gerðir samningar við þau bú sem hyggjast taka við áburði þar sem fram komi magn skíts og dreifingarsvæði. Miðað við erlenda staðla megi áætla að allt að 1000 ha lands þurfi til að taka við þeim skít sem til fellur.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd bendir á að deiliskipulag sé ótímabundin áætlun en samningar við viðtakendur búfjáráburðar verði að öllum líkindum tímabundnir og muni því ekki tryggja land til skítadreifingar nema til takmarkaðs tíma. Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að skipulagshönnuði verði falið að gera grein fyrir ráðstöfun búfjáráburðar, þ.e. tilgreina hve mikið land þurfi til að taka við áburði sem til fellur á hverju ári og tilgreina hvaða ræktaða land og önnur svæði muni nýtast í því tilliti.

d) Sendandi telur að gera skuli skýlausa kröfu um að skít skuli dreift með niðurfellingarbúnaði.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd bendir á að starfsemi svínabúsins sé háð starfsleyfi Umhverfisstofnunar skv. reglugerð um losun frá atvinnurekstri og mengunareftirlit nr. 550/2018, og í reglugerðinni komi fram skilmálar um notknun bestu aðgengilegu tækni (BAT). Skipulagsnefnd bendir á að Umhverfisstofnun sé það stjórnvald sem fari með framfylgd fyrrnefndrar reglugerðar og því sé eðlilegt að stofnunin hafi atbeina að því að fyrirskrifa tilteknar tæknilausnir fyrir starfsemina.

e) Sendandi telur að útskýra þurfi hvað sé átt við með „önnur svæði“ í kafla 2.4.5 í greinargerð deiliskipulagstillögu.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd vísar í afgreiðslu á lið c) í erindi sendanda.

f) Sendandi gerir kröfu um að mengunarvarnir í útblæstri verði samkvæmt nýjustu tækni og að gengið verði alla leið í að lágmarka mengun hverskonar. Sendandi minnir á að áætlanir um lyktarmengun frá verksmiðju Moltu hafið brugðist.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd bendir á að starfsemi svínabúsins sé háð starfsleyfi Umhverfisstofnunar skv. reglugerð um losun frá atvinnurekstri og mengunareftirlit nr. 550/2018, og í reglugerðinni komi fram skilmálar um notknun bestu aðgengilegu tækni (BAT). Skipulagsnefnd bendir á að Umhverfisstofnun sé það stjórnvald sem fari með framfylgd fyrrnefndrar reglugerðar og því sé eðlilegt að stofnunin hafi atbeina að því að fyrirskrifa tilteknar tæknilausnir fyrir starfsemina.

g) Sendandi gerir kröfu um að útfærsla á lokun tveggja skítaþróa skuli liggja fyrir áður en að deiliskipulags sé samþykkt. Ekki sé sjálfgefið að lokun með dúk af þessari stærð standist áhlaup vegna veðurs eða snjóþunga.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd bendir á að ákvæði sem fram koma í grein 5 í reglugerð um eldishús alifugla, lodýra og svína nr. 520/2015 kveði á um að haugtankar séu lokaðir, og að við byggingarleyfisumsókn skuli sýna fram á að fyrirhugaður frágangur standist veðuráraun.

h) Sendandi tekur undir athugasemdir 2, 3, 4, 5 og 6 í erindi Ljósaborgar ehf.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd vísar í afgreiðslu á umræddum athugasemdum.

7. erindi. Sendandi Guðjón Þ. Sigfússon, Grund
a) Sendandi bendir á að um 40-50 hektarar af landeign sinni sé innan 600 m radíus frá eldishúsum og að það land verði svo til verðlaust til framtíðar vegna takmarkana sem af nálægð við svínabú leiða skv. reglugerð nr. 520/2015. Ekki sé hægt að skipuleggja þar svæði fyrir mannabústaði, útivistarsvæði, frístundasvæði eða ferðaþjónustu. Sendandi tekur fram að til greina geti komið að byggja nýtt fjós á svæði í átt að Torfum og að staðsetning svínabús sé þess valdandi að ekki sé hægt að byggja íbúðarhús fyrir starfsmenn þar fyrir sunnan og suðvestan.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd bendir á að skv. gildandi aðalskipulagi sveitarfélagsins sé fyrirhugað svínabú og næsta nágrenni þess alfarið á landbúnaðarsvæði og því sé heimild til uppbyggingar íbúðarsvæðis, frístundasvæðis eða útivistarsvæðis ekki til staðar á landinu sem sendandi vísar til. Svínabú á Torfum mun þó ekki fyrirbyggja byggingu fjóss eða annara landbúnaðarmannvirkja á landsvæðinu sem um ræðir, og með hliðsjón af gr. 23 og 25 í reglugerð um hollustuhætti nr. 91/2002 verður ekki séð að svínabúið muni fyrirbyggja byggingu starfsmannabústaðar vegna landbúnaðarmannvirkja heldur. Skipulagsnefnd telur því að sú landnýting sem heimil sé á landsvæðinu í dag verði áfram heimil eftir gildistöku auglýsts deiliskipulags. Með tilliti til þess telur skipulagsnefnd ekki að verðgildi landsins rýrist frá því sem nú er við tilkomu svínabúsins.

b) Sendandi fer fram á gerð sé fullnægjandi grein fyrir meðhöndlun úrgangs, eins og t.a.m. verði gerð krafa um að úrgangi verði dreift með niðursetningar eða niðurfellingarbúnaði þannig að lyktarmengun verði sem minnst. Sendandi bendir á að frá árinu 2003 var óheimilt að dreifa svínaskít á tún með öðrum aðferðum en þessum í Danmörku. Sendandi bendir á að í Danmörku sé þak á magn af nitri sem dreifa má á tún á hektara auk þess sem kvaðir eru settar á hvenær megi dreifa svínaskít á tún og á hvernig jarðveg. Þá þarf að vera skýr forsenda skipulags og framkvæmda að skriflegt samkomulag liggi fyrir við eigendur jarða sem ætla að taka á móti skít og í hvaða mæli, án þess að grunnvatns eða jarðvegsmengun hljótist af. Sendandi telur að kröfur varðandi þessi atriði þurfi að vera skýrar í verkefninu og ófrávíkjanlegar þegar kemur að samþykkt skipulagsins.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd bendir á að starfsemi svínabúsins sé háð starfsleyfi Umhverfisstofnunar skv. reglugerð um losun frá atvinnurekstri og mengunareftirlit nr. 550/2018, og í reglugerðinni komi fram skilmálar um notknun bestu aðgengilegu tækni (BAT) við rekstur búsins. Skipulagsnefnd bendir á að Umhverfisstofnun sé það stjórnvald sem fari með framfylgd fyrrnefndrar reglugerðar og því sé eðlilegt að stofnunin hafi atbeina að því að fyrirskrifa tilteknar tæknilausnir fyrir starfsemina. Ennfremur bendir skipulagsnefnd á að skv. upplýsingum frá Umhverfisstofnun muni stofnunin skilyrða starfsleyfi við það að skítadreifing fari eingöngu fram milli 1. apríl og 15. október, og ennfremur að búfjáráburði megi ekki dreifa á frosna jörð. Í greinargerð deiliskipulags kemur fram að skít verði dreift að vori og hausti, og í ljósi ofangreinds telur skipulagsnefnd dreifingartímabil búfjáráburðar sé nokkuð skilmerkilega afmarkað.
Varðandi ráðstafanir til að hindra mengun grunnvatns vísar skipulagsnefnd í grein 8 c í reglugerð um losun frá atvinnurekstri og mengunareftirlit nr. 550/2018, þar sem starfsleyfisskilyrði Umhverfisstofnunar varðandi málefnið eru tíunduð. Skipulagsnefnd telur að verndarhagsmir grunnvatns séu tryggðir á þennan hátt og því verði skriflegra samninga um móttöku áburðar ekki krafist í því tilliti.
Varðandi takmörk á hámarks magn niturs sem bera má á tún vísar skipulagsnefnd í starfsreglur um góða búskaparhætti þar sem fram kemur að áburðarþörf eigi ekki að vera meiri en 120-140 kg N/ha og aldrei meiri en 170 kg N/ha.

c) Farið er fram á að þrær fyrir úrgang frá búi verði lokaðar m.a. vegna hættu á sýkingum í nærumhverfi. Mjólkurframleiðsla er í nágrenni við bú og er afar viðkvæm fyrir þessum áhrifum. Flutningur getur verið milli búa með fuglum eða flugum.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd bendir á ákvæði í grein 5 í reglugerð um eldishús alifugla, lodýra og svína nr. 520/2015 þess efnis að skítur og mykja blandist ekki vatni. Skipulgsnefnd bendir ennfremur á greinar 2.1.3 og 2.1.5 í riti HNE „Starfsskilyrði vegna mengunarvarna fyrir svínabú“, þar sem segir að þess skuli gætt að hvorki fuglar né meindýr eða önnur dýr komist í úrgang eða annað æti frá svínabúi, auk þess sem gerð er krafa um að húsdýraáburð skuli geyma í þéttum og vönduðum hauggeymslum svo ekki hljótist mengun af.
Skipulagsnefnd telur því að gildandi relguverk tryggi fullnægjandi frágang haugeymsla og flutningsbúnaðar og athugasemd sendanda gefi því ekki tilefni til breytinga á auglýstri skipulagstillögu.

d) Sendandi gerir athugasemd við að í umfjöllun um lyktaráhrif svínabús sé ekki gerð grein fyrir styrkleika anga í lofti frá svínabúi (ppm) eða magni útblásturs (g/dag) og telur að þessar upplýsingar þurfi að koma fram. Ekki komi heldur fram til hvaða aðgerða sé gripið til að takmarka lyktarmengun frá búi. Sendandi kallar eftir þessum upplýsingum og að nágrönnum verði gefinn kostur á að gera athugasemdir innan ákveðins tíma þegar þessar upplýsingar liggja fyrir.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd bendir á að í 2. hluta VIII. viðauka reglugerðar um losun frá atvinnurekstri og mengunareftirlit nr. 550/2018 sé kveðið á um viðmiðunarmörk fyrir losun tiltekinna efna í andrúmsloftið og mun Umhverfisstofnun framfylgi því að starfsemin uppfylli kröfurnar. Skv. upplýsingum frá framkvæmdaraðila verða haugtanktar lokaðir, dreifing á búfjáráburði verði samkvæmt nýjum reglum um besta aðgengilegu tækni (BAT) og auk þess minnki yfirborðsflötur flóra umtalsvert miðað við eldri viðmið, sem allt muni stuðla að minnkun lyktaráhrifa. Framkvæmdaraðili upplýsir ennfremur að unnt sé að bregðast við kvörtunum með mótvægisaðgerðum á borð við aukinn undirburð og notkun niðurbrotsefna í mykjuna.

e) Sendandi gerir athugasemd við að í kafla 5.8 í greinargerð auglýstrar skipulagstillögu sé fullyrt, án rannsókna, að lykt frá núverandi fjósi á Grund sé meiri en frá svínabúi. Ljóst megi vera að það er sitt hvor lyktin frá svínabúi og fjósi og efnasamsetning á loftögnum sé allt önnur. Lykt frá svínaskít geti verið ofnæmisvaldandi. Talið sé að nokkur hundruð aðgreind efni eða efnasambönd geti verið í útblásturslofti frá svínabúi auk örvera.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd telur að athugasemdin gefi ekki tilefni til breytinar á auglýstri skipulagstillögu, þar sem í greinargerðinni er ekki fullyrt, heldur talið líklegt, að lyktaráhrif sem gæta muni á Grund verði að meiru leyti komin frá gripahúsum þar heima en frá svínabúinu.

f) Sendandi vísar til texta í kafla 5.8 í greinargerð deiliskipulags og fer fram á að texti sé leiðréttur þannig að fram komi að fjós sé í góðri fjarlægð frá íbúðarhúsi á Grund og byggt eftir þess tíma reglum, og að fjós sé ekki byggt á bæjartorfunni á Grund.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að orðalagi umrædds texta í greinargerð sé breytt á þá leið að fram komi að gripahús en ekki fjós séu á bæjartorfunni á Grund.

g) Sendandi vísar til erlendra rannsókna sem benda til að efnasambönd í lofti og umhverfi frá svínabúum geti verið heilsuspillandi. Sendandi gerir athugasemd við að ekki sé fjallað um þessa áhættu í greinargerð með deiliskipulagi, þ.e. möguleg áhrif á heilsu og hvar þessi mörk liggja eða hvaða efni eru í lofti frá svínabúi og í hvaða mæli. Sendandi bendir á að hægt sé að byggja inn í svínabú hreinsibúnað sem lækki verulega styrk agna í útblæstri. Sendandi fer fram á að þetta liggi fyrir, enda ein af meginforsendum skipulagslaga að heilbrigði og öryggi íbúa svæðis verði haft að leiðarljósi.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd bendir á að í 2. hluta VIII. viðauka reglugerðar um losun frá atvinnurekstri og mengunareftirlit nr. 550/2018 sé kveðið á um viðmiðunarmörk fyrir losun tiltekinna efna í andrúmsloftið og mun Umhverfisstofnun framfylgi því að starfsemin uppfylli kröfurnar. Ennfremur bendir skipulagsnefnd á að starfsemi svínabúsins sé háð starfsleyfi Umhverfisstofnunar skv. reglugerð um losun frá atvinnurekstri og mengunareftirlit nr. 550/2018, og í reglugerðinni komi fram skilmálar um notnun bestu aðgengilegu tækni (BAT) sem ætla megi að draga muni úr lyktaráhrifum frá svínabúinu.

h) Sendandi vísar til markmiða í 1. kafla skipulagslaga nr. 123/2010 og gerir athugasemd við að í greinargerð deiliskipulags sé ekki fjallað um sjálfbæra þróun eða hvernig bú samræmist því að hafa sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Það sé afar mikilvægt að gæta að ímynd svæðis sem hér um ræðir, að ímynd verði vörðuð hreinleika, sjáfbærni og að náttúra fái notið sín sem best. Sendandi vísar til loftslagsmála í þessu tilliti og þess að lágmarka kolefnisspor allrar starfsemi.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd bendir á að framleiðsla svínakjöts á svæðinu muni draga úr flutningum kjöts og lifandi gripa úr öðrum landshlutum. Auk þess muni búfjáráburður sem til fellur í búinu draga úr þörf á aðkeyptum áburði. Í ljósi þessa telur skipulagsnefnd einsýnt að starfsemi svínabúsins samræmist sjónarmiðum um sjálfbæra þróun, og auki þess utan sjálfbærni Íslands í matvælaframleiðslu.

i) Sendandi vísar ennfremur til möguleika á metanvinnslu úr svínaskít, sem dragi verulega úr neikvæðum áhrifum svínabús. Sendandi bendir á að ekki sé gerð grein fyrir þessum þáttum í skýrslu og fer fram á að það sé gert.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Gefur ekki tilefni til bókunar.

8. erindi. Sendandi Valur Ásmundsson f.h. Hestamannafélagsins Funa.
a) Sendandi telur mikilvægt að skýrt komi fram að reiðleið meðfram Eyjafjarðarbraut vestri haldist óbreytt. Einnig telur sendandi að skynsamlegt að útfæra þverun reiðleiðar á aðkeyrslunni að fyrirhuguðu svínabúi. Sendandi gerir auk þess athugasemd við að ekki komi fram í deiliskipulaginu hvar koma eigi fyrir reiðleið með Finnastaðaá.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd vísar í kafla 1.4 í greinargerð þar sem fram kemur að ekki standi til að breyta reiðleið meðfram Eyjafjarðarbraut vestri (RH2 í aðalskipulagi Eyjafjarðarsveitar 2018-2030). Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að skipulagshönnuði sé falið að færa reiðleið meðfram Finnastaðaá (RS3 á aðalskipulagi Eyjafjarðarsveitar 2018-2030) upp í efri byggð inn á skipulagsuppdrátt deiliskipulags.

b) Sendandi fjallar um reiðleið meðfram Finnastaðaá og upplýsir að á áætlun sé að laga þessa leið og leggja reiðveg áfram um Efribyggð inn í Djúpadal. Sendandi telur nauðsynlegt að tryggja þessa leið í skipulagi Eyjafjarðarsveitar og því leggur Funi til að gerð verði grein fyrir mögulegri staðsetningu slíks vegar inná deiliskipulagi og jafnframt verði gerð breyting á aðalskipulagi þar sem fjallað er um reið- og gönguleiðir til samræmis.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd vísar til afgreiðslu á athugasemd 8 a).

9. erindi. Sendandi Sigríður Ásný Ketilsdóttir.
a) Hefur verið gert umhverfismat á loftslagsáhrifum sem svíanbú af þessari stærð mun hafa á svæðið, með tilliti til veðurfars og veðurstilla á svæðinu.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd bendir á að framkvæmdin sem um ræðir er tilkynningarskyld til Skipulagsstofnunar skv. lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000, og að fyrir liggi úrskurður stofnunarinnar dags. 12. mars 2019 þess efnis að framkvæmdin sé ekki matsskyld.

b) Hafa áhrif af notkun illgresis- og skordýraeiturs í fóðri verið könnuð? Sendandi heldur fram að það magn sem komi frá stórbýli/verksmiðju sem þessari muni margauka eitur í jarðvegi sem síðar skili sér út í grunnvatn og önnur vatnasvæði neðar í dalnum.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd telur það ekki vera á sínu verksviði að taka afstöðu til þessarar athugasemdar sendanda en telur þó ekki að eðlismunur sé á búfjáráburði frá svínum og öðrum búpeningi hvað þetta atriði varðar.

c) Hefur fjárhagslegt tap annarrar uppbyggingar á svæðinu eins og ferðaþjónustu og annarrar matvælaframleiðslu verið kannað vegna neikvæðra áhrifa frá starfsemi af þessari stærðargráðu.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd telur ekki að fyrirhugað svínabú hafi neikvæð áhrif á aðra uppbyggingu á svæðinu miðað við skilmála gildandi aðalskipulags.

d) Hafa áhrif sjónrænnar mengunar verið kannaðar með tilliti til annarrar uppbyggingar á svæðinu, m.a. tengt ferðaþjónustu og náttúruskoðunnar.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Með vísan í umfjöllun í kafla 5.8.1. og afgreiðslu nefndarinnar á erindi 3 c) telur skipulagsnefnd að byggingarskilmálar mildi sjónræn áhrif mannvirkja eins og kostur er.

e) Hafa áhrif hljóðmengunar verið kannaðar með tilliti til annarrar uppbyggingar á svæðinu, m.a. tengt ferðaþjónustu og náttúruskoðun. Meðal annars vegna opinna útivistarsvæða fyrir dýrin.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd telur ekki að fyrirhugað svínabú hafi neikvæð áhrif á aðra uppbyggingu á svæðinu miðað við skilmála gildandi aðalskipulags.

f) Hefur verið kannað hvert heilsufarsleg áhrif starfssemi af þessari stærðargráðu muni hafa á fólk í nágrenni við búið.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd bendir á að í 2. hluta VIII. viðauka reglugerðar um losun frá atvinnurekstri og mengunareftirlit nr. 550/2018 sé kveðið á um viðmiðunarmörk fyrir losun tiltekinna efna í andrúmsloftið og mun Umhverfisstofnun framfylgja því að starfsemin uppfylli kröfurnar. Ennfremur er í sömu reglugerð kveðið á um notknun bestu aðgengilegu tækni (BAT) í starfsemi svínabúsins, sem ætla megi að draga muni úr lyktaráhrifum frá svínabúinu.

g) Hafa verið gerðar rannsóknir á áhrifum til langframa 20, 50, 100 ár sem starfsemi af þessu tagi muni hafa áhrif á vatn, loftslag, jarðveg.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Starfsemi fyrirhugaðs svínabús er háð starfsleyfi Umhverfisstofnunar skv. reglugerð um losun frá atvinnurekstri og mengunareftirlit nr. 550/2018, og í þeirri reglugerð eru skilgreind viðmið til verndar þeim gildum sem felast í heilnæmu og ómenguðu umhverfi. Skipulagsnefnd bendir ennfremur á að framkvæmdin sem um ræðir er tilkynningarskyld til Skipulagsstofnunar skv. lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000, og að fyrir liggi úrskurður stofnunarinnar dags. 12. mars 2019 þess efnis að framkvæmdin sé ekki matsskyld. Í ljósi þessa telur skipulagsnefnd ekki ástæðu til að hafa áhyggjur af langtímaáhrifum framkvæmdarinnar.

Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að auglýst skipulagstillaga sé samþykkt skv. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með þeim breytingum sem tilgreindar eru í afgreiðslu nefndarinnar á athugasemdum 3 c), 3 e), 6 c), 7 f) og 8 a).

Skipulagsnefnd bendir á að 9. erindi sé beint til sveitarstjórnar en að skipulagsnefnd hafi afgreitt þá þætti erindisins sem að henni snúa.

Sérbókun Emilíu Baldursdóttur vegna fyrirhugaðs svínabús á landi frá Torfum: Ég tel óæskilegt að stofnað sé til svo umfangsmikilla mannvirkja og reksturs í óþökk næstu nágranna. Vísa ég þar til athugasemda varðandi umfang og staðsetningu sem fram komu á kynningarfundi í Hrafnagilsskóla 5. september 2018 sem og nú við auglýsta deiliskipulagstillögu, alls frá 8 heimilum.

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 16:00

Getum við bætt efni síðunnar?