Skipulagsnefnd

124. fundur 09. nóvember 2009 kl. 15:21 - 15:21 Eldri-fundur
124 . fundur skipulagsnefndar Eyjafjarðarsveitar haldinn að Syðra Laugalandi, mánudaginn 2. nóvember 2009 og hófst hann kl. 17:30.
Fundinn sátu:
óli þór ástvaldsson, Emilía Baldursdóttir, Karel Rafnsson, Einar Grétar Jóhannsson, Arnar árnason og Jónas Vigfússon.

Fundargerð ritaði:  Jónas Vigfússon, sveitarstjóri.

Dagskrá:

1.     0804011 - Breyting á aðalskipulagi vegna efnistöku.
Vísað er til bókunar skipulagsnefndar frá 119. fundi 17. ágúst s.l., en þar kemur fram að gera þurfi umhverfisskýrslu áður en tillagan er auglýst og samþykkt. Fyrir liggur tíma- og kostnaðaráætlun frá verkfræðistofunni Eflu um gerð slíkrar skýrslu. Einnig hefur verið óskað eftir áætlun frá Veiðimálastofnun en hún hefur ekki borist þrátt fyrir ítrekanir.
ákveðið að leggja til við sveitarstjórn að samið verði við Eflu um gerð umhverfisskýrslu áætlunarinnar. Við gerð umhverfisskýrslunnar verði leitað til höfunda skýrslu um fuglalíf við óshólma Eyjafjarðarár til álitsgjafar varðandi áhrif efnistöku á leirusvæðinu á afkomu fugla.
        

2.     0911001 - Lágmarksviðmið vegna nýrra íbúðarhúsasvæða á aðalskipulagi
Fundarstjóri leitaði afbrigða til að bæta inn nýju máli og var það samþykkt.
Sveitarstjórn hefur óskað eftir því að skipulagsnefnd taki til umfjöllunar greinargerð árna ólafssonar og Kristins Magnússonar, dags. 14. ágúst 2009, um forsendur fyrir skipulagsbreytingum íbúðarhúsa í dreifbýli. Nefndin skoði hvort rétt sé að setja viðmið vegna skilgreiningar íbúðarsvæða eins og lagt er til í greinargerðinni.
Skipulagsnefnd leggur til að viðmiðin í tillögunni gildi sem lágmarksviðmið ef sótt er um að setja inn ný íbúðarhúsasvæði á aðalskipulagi.
        

3.     0903015 - Arnarholt - Umsókn um breytta landnotkun
Málinu frestað.

        
4.     0910018 - Skólalóð - deiliskipulag
Skipulagsnefnd leggur til að gert verði deiliskipulag að svæði í kring um Hrafnagilsskóla, sem afmarkast af þjóðvegi, Reyká, Eyjafjarðará og girðingu norðan við tjaldsvæði.

        
5.     0909014 - Reiðvegur - héraðsleið 8
Hestamannafélagið Funi hefur óskað eftir að auglýsingu héraðsleiðar 8 verði frestað vegna gífurlegrar hættu fyrir umferð hesta og hestafólks við að fara yfir brúna yfir Munkaþverá.
Ekki er fallist á erindið en samþykkt að auglýsa skipulagstillöguna um héraðsleið 2 og 8, enda verði öryggismál brúar yfir Munkaþverá leyst með fullnægjandi hætti og áætlun þar um komi fram í greinargerð með tillögunni.
Tillagan samþykkt með 4 greiddum atkvæðum.
óli þór óskaði eftir að eftirfarandi yrði bókað:
" Ekki veldur sá er við varar:
á 121. skipulagsnefndarfundi sem haldinn var 21. september s.l. var lagt fram til kynningar tillaga að reiðvegi frá hitaveituvegi við Laugaland meðfram Eyjafjarðarbraut eystri að Bringu.
í umræðunni var staldrað við leiðina yfir brúna hjá Munkaþverá.  Heyrðist þá í umræðinni orðið ,,stórhættulegt” notað aftur og aftur um aðstæður þeirra sem þurfa að fara ríðandi að og frá og yfir téða brú.
í fyrsta lagi eru allar aðstæður varðandi brúna sjálfa yfir djúpu gljúfri  hættulegar.  í öðru lagi er veruleg hætta frá akandi umferð úr báðum áttum.

Ekki þarf að fara lengra aftur en til s.l. sumars  þegar atvik varð á umræddum,  stað þar sem mikið hættuástand skapaðist þegar ríðandi fólk fór þar yfir og mildi að ekki varð alvarlegt slys. þetta atvik er ekki einsdæmi á téðum stað.

Nú er það eitt af stærri hlutverkum skipulagsnefndar að tryggja svo sem kostur er öryggi vegfarenda og er ábyrgð nefndarinnar rík hvað þetta varðar.
Formaður nefndarinnar  hefur fullan skilning á því að umrædd héraðsleið þurfi að komast á,  en á meðan ekkert liggur fyrir um hvort,  eða hvernig hægt er að tryggja öryggi vegfarenda á þessum stað,  er það álit formanns að fresta bera málinu þar til raunhæfar tillögur liggja fyrir varðandi öryggismál.”
        

Fleira ekki gert.  Fundi slitið kl.   20:00
Getum við bætt efni síðunnar?